Skýrsla stjórnar
Ávarp formannsMetár í íslenskri golfsögu! Gott ár í sögu Golfklúbbsins Odds. Þetta hljómar vel en þessu fylgir aukin ábyrgð og ný verkefni. Það gerði enginn ráð fyrr því að fjölgun í golfíþróttinni myndi verða svona hröð eins og raun ber vitni síðustu tvö ár. Tölur frá þjóðum í kringum okkur fram til 2020 sýndu að líklegi myndi iðkendafjöldi standa í stað næstu ár eða iðkendum fækka. Auðvitað er skýringin á fjölgun öllum ljós og það eina sem enginn veit er hvort sama þróun haldi áfram eða hversu stórt hlutfall af þeim sem bættust við hreyfinguna heldur sér í golfi um ókomna tíð.
Í þessari þróun eða fjölgun felast tækifæri. Við sjáum að hugmyndir okkar um stækkun Urriðavallar sem við höfum þegar kynnt gætu leyst að hluta okkar vanda og vanda golfhreyfingarinnar. Biðlisti hefur myndast í okkar golfklúbb og biðlisti er í dag í alla golfklúbba á höfuðborgarsvæðinu. Við þurfum að stækka innviði okkar eins og golfskála og miðað við þróun í átt að kröfu um heilsársaðstöðu sem er alltaf að verða háværari og háværari þá þurfum við að huga að því að byggja inniaðstöðu. Dagur kemur eftir þennan dag er spakmæli sem gott er að hafa í huga, framtíðin er óljós en við ætlum að vera bjartsýn á nýju ári, fylgja eftir okkar mikilvægasta málefni, stækkun Urriðavallar og halda áfram að láta þessa perlu okkar Urriðavöll blómstra í allri sinni mynd.
Félagsmenn Golfklúbburinn Oddur
Skýrsla afreksnefndar
Hér í skýrslu afreksnefndar er farið yfir helsta árangur okkar keppnisfólks sem fór víða í sumar og voru glæsilegir fulltrúar okkar golfklúbbs. Ingi Þór Hermannsson spilaði sig inn í landslið LEK 55+ með forgjöf, meistaraflokkur karla náði 3. sæti á Íslandsmóti golfklúbba í 2. deild og nýtt keppnislið okkar í aldursflokknum 65 + keppti á óformlegu Íslandsmóti golfklúbba í þeim flokki undir formerkjum LEK og hafnaði í þriðja sæti og voru nálægt því að spila til úrslita.
Félagsstarf á tímum covid
Félagsstarfi golfklúbbsins voru settar nokkrar skorður á köflum í vetur sem takmarkaði stærri samkomur og almenna gleði. Gönguhópur GO var þó virkur framan af vetri og almennt starf var svo með nokkuð hefðbundnum hætti yfir sumartímann þar sem meistaramótið og mótatengdir viðburðir eru í aðalhlutverki. Til að klára gott sumar náðist að fara í “árlega” haustgolfferð GO sem féll niður 2020 og við heimsóttum stórglæsilegt golfsvæði La Manga á Spáni.
Ársreikningur GO 2021
Rekstur Golfklúbbsins Odds gekk vel á árinu 2021. Ljúflingur og æfingasvæði GO skiluðu frábærri afkomu og félagafjöldi í GO var í hámarki og í dag eru um 220 manns á biðlista. Hægt er að skoða ársreikning og áætlun næsta árs með því að smella á hnappinn hérna fyrir neðan.